4 Febrúar 2010 12:00

Einn var tekinn fyrir ölvunarakstur í Reykjavík í gær. Um var að ræða karl á fimmtugsaldri en sá lenti í árekstri í Álfheimum í hádeginu og stakk af frá vettvangi en var stöðvaður og handtekinn skammt frá. Maðurinn hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Í gær voru jafnframt tveir ökumenn teknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Báðir voru stöðvaðir um miðjan dag, annar í miðborginni en hinn í Háaleitishverfi. Um var að ræða tvo karla, sá yngri er rúmlega tvítugur en sá eldri er hálffimmtugur. Sá yngri hafði þegar verið sviptur ökuleyfi en í bíl þess eldri fundust ýmsir munir sem grunur leikur á að séu þýfi.