17 Október 2011 12:00

Átta ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þetta voru allt karlar en þeir eru á aldrinum 18-31 árs. Þrír þeirra höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Þá stöðvaði lögreglan fólksbíl í Kópavogi aðfaranótt laugardags en við stýrið var 15 ára unglingspiltur. Með honum í för var annar piltur, ári eldri, og hafði hann líka verið að aka bílnum en sá síðarnefndi hafði tekið bílinn traustataki hjá foreldrum sínum. Piltarnir voru fluttir á lögreglustöð en þangað voru þeir síðan sóttir af forráðamönnum.