27 Maí 2014 12:00
Tuttugu og einn ökumaður var tekinn fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Sextán þeirra voru stöðvaðir í Reykjavík, þrír í Garðabæ og tveir í Hafnarfirði. Tveir voru teknir á föstudagskvöld, tíu á laugardag, átta á sunnudag og einn aðfaranótt mánudags. Þetta voru fimmtán karlar á aldrinum 17-66 ára og sex konur, 22-63 ára. Tveir þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi og tveir hafa aldrei öðlast ökuréttindi.
Til að fullrar nákvæmni sé gætt voru reyndar tuttugu ökumenn teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur í umdæminu um helgina. Einn var nefnilega tekinn tvisvar, en um var að ræða karl á þrítugsaldri. Sá var stöðvaður í miðborginni aðfaranótt laugardags og svo aftur um kaffileytið sama dag, en þá var viðkomandi tekinn fyrir hraðakstur í austurborginni og reyndist enn vera undir áhrifum áfengis. Maðurinn hefur ekki áður komið við sögu hjá lögreglu.