26 Júní 2018 13:55

Fjörutíu og einn ökumaður var tekinn fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina og er það óvenjulega mikið. Þrjátíu og tveir þeirra voru stöðvaðir í Reykjavík, fjórir í Hafnarfirði, þrír í Kópavogi og tveir í Garðabæ. Þrír voru teknir á föstudagskvöld, nítján á laugardag, fjórtán á sunnudag og fimm aðfaranótt mánudags. Þetta voru þrjátíu og þrír karlar á aldrinum 17-45 ára og átta konur, 19-64 ára. Sex þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi, fimm höfðu aldrei öðlast ökuréttindi og einn var í akstursbanni.