4 Mars 2019 17:34
Það var í mörg horn að líta hjá lögreglunni um helgina, en m.a. voru fjörutíu og sex ökumenn teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu. Hinir sömu voru stöðvaðir víðs vegar í umdæminu og þar af einn sem var tekinn fyrir þessar sakir í tvígang, fyrst á föstudagskvöld og svo aftur aðfaranótt sunnudags. Þetta voru þrjátíu og sex karlar og tíu konur, en yngsti ökumaðurinn er 18 ára og sá elsti 66 ára. Um leið og það er gott að þessir ökumenn voru stöðvaðir í umferðinni er það að sama skapi afskaplega dapurlegt að svo margir skuli setja sjálfa sig og aðra í hættu með þessu dómgreindarleysi.