26 Mars 2008 12:00

Tuttugu og sjö ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um páskana. Fimm voru stöðvaðir á skírdag, þrír á föstudaginn langa, fimm á laugardag, fimm á páskadag og níu á annan í páskum. Tuttugu og tveir voru teknir í Reykjavík, tveir í Hafnarfirði og Kópavogi og einn í Garðabæ. Þetta voru tuttugu karlar á aldrinum 16-49 ára og sjö konur, 20-51 árs. Sjö karlanna eru á þrítugsaldri, fimm á fertugsaldri, fjórir á fimmtugsaldri og fjórir undir tvítugu. Fimm kvennanna eru á þrítugsaldri.

Á sama tímabili tók lögreglan sex ökumenn sem voru undir áhrifum fíkniefna. Þeir voru allir stöðvaðir í Reykjavík en þetta voru allt karlar. Fjórir eru á þrítugsaldri, einn undir tvítugu og einn tæplega sextugur.