26 Október 2007 12:00

Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Annar þeirra, karl á þrítugsaldri, var stöðvaður í Grafarvogi en hinn, 18 ára piltur, var stöðvaður í Kópavogi. Sá yngri hefur aldrei öðlast ökuréttindi en með honum í bílnum voru sex farþegar, sem allir voru í annarlegu ástandi.

Þá voru tveir ökumenn teknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna í gærkvöld. Fyrst var kona um tvítugt stöðvuð fyrir þær sakir í Breiðholti og síðan var tæplega þrítugur karl stöðvaður af sömu ástæðu í Hafnarfirði. Í bíl hans fundust ætluð fíkniefni en ökumaðurinn og farþegi hans, karl á líkum aldri, voru báðir færðir á lögreglustöð en sá síðartaldi reyndist jafnframt vera eftirlýstur fyrir aðrar sakir.

För tveggja ökumanna til viðbótar var stöðvuð í Breiðholti í gærkvöld og nótt en báðir voru réttindalausir. Annar þeirra, karl um þrítugt, hafði þegar verið sviptur ökuleyfi en hinn, 16 ára piltur, hefur skiljanlega aldrei öðlast ökuréttindi.