26 Júlí 2007 12:00

Piltur um tvítugt var sviptur ökuleyfi til bráðabirgða eftir að bíll hans mældist á 110 km hraða á Strandvegi í Grafarvogi í gærkvöld. Sami piltur var einnig tekinn fyrir hraðakstur á öðrum stað í borginni í fyrrakvöld. Sautján ára stúlka var sömuleiðis svipt ökuleyfi til bráðabirgða í gærkvöld. Hún var staðin að hraðakstri í íbúðargötu í Kópavogi en stúlkan ók á 64 km hraða.

Tvær konur á fertugsaldri voru teknar fyrir ölvunarakstur í gær. Önnur var stöðvuð í austurborginni í gærmorgun en hin í Breiðholti síðdegis. Þá var tæplega hálfþrítug kona stöðvuð í Hafnarfirði en hún ók bæði of hratt og var á bíl búnum nagladekkjum.