12 Febrúar 2007 12:00
Fimmtán ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Einn var stöðvaður í Mosfellsbæ, tveir í Kópavogi en hinir á ýmsum stöðum í Reykjavík. Þetta voru þrettán karlmenn og tvær konur, önnur á þrítugsaldri en hin á fimmtugsaldri. Karlarnir eru langflestir á þrítugsaldri. Sá elsti í hópnum er hins vegar áttræður en sá yngsti aðeins 16 ára en hann hefur þ.a.l. aldrei öðlast ökuréttindi. Ungi pilturinn var stöðvaður í Breiðholti en í kjölfarið reyndi hann að stinga lögregluna af á hlaupum en komst ekki langt áður en hann var handsamaður. Þá stöðvaði lögreglan sjö ökumenn til viðbótar sem voru þegar sviptir ökuleyfi.
Fjörutíu og níu umferðaróhöpp voru tilkynnt um helgina en í fjórum tilvikum var fólk flutt á slysadeild. Í níu tilfellum var um afstungu að ræða. Fjölmargir ökumenn notuðu ekki bílbelti eða töluðu í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað en hinir sömu eiga allir sekt yfir höfði sér. Þá hafði lögreglan afskipti af á annan tug ökumanna sem óku ökutækjum þar sem skráningarnúmer vantaði eða þau voru ógreinileg. Skráningarnúmer voru klippt af sjö ökutækjum sem öll voru ótryggð.