14 Maí 2007 12:00
Fjórtán ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina en tveir þeirra voru jafnframt með ætluð fíkniefni í fórum sínum. Tveir voru stöðvaðir á föstudag, níu á laugardag, tveir á sunnudag og einn í nótt. Tíu voru teknir í Reykjavík, þrír í Hafnarfirði og einn í Garðabæ. Þetta voru tíu karlmenn og fjórar konur. Þrír karlanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi.
Ökumennirnir voru á ýmsum aldri en hjá körlunum eru tveir á áttræðisaldri. Annar þeirra missti stjórn á bílnum sínum í Grafarvogi á föstudag og hafnaði utan vegar. Ferðalag 17 ára pilts endaði með sama hætti í Garðabæ á laugardag en ökumaðurinn fékk ökuleyfi fyrir fáeinum vikum. Í Hafnarfirði var annar 17 ára piltur á ferð sama dag en sá keyrði á ljósastaur.
Í gærmorgun var bíl ekið á vegrið á höfuðborgarsvæðinu en undir stýri var kona á þrítugsaldri. Hún hafði setið við drykkju fram á nótt og síðan sofið í fáeina klukkutíma. Konan var enn undir áhrifum þegar hún settist aftur undir stýri og því fór sem fór. Konan má þó teljast lánsöm því hún var á leiðinni að sækja börnin sín úr pössun þegar óhappið varð. Ekki er víst að eins vel hefði farið ef börnin hefðu líka verið í bílnum þegar hún missti stjórn á honum. Þetta dæmi er nefnt hér til að vekja ökumenn til umhugsunar um að fara ekki of fljótt af stað eftir áfengisneyslu.