22 Apríl 2008 12:00
Sautján ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Fimm voru stöðvaðir á föstudag, átta á laugardag og fjórir á sunnudag. Tíu voru teknir í Reykjavík, þrír í Kópavogi, tveir í Hafnarfirði og einn í Garðabæ og Mosfellsbæ. Þetta voru fimmtán karlar á aldrinum 16-59 ára og tvær konur, 17 og 20 ára. Fjórir karlanna eru á þrítugsaldri, fjórir á fertugsaldri, þrír á fimmtugsaldri, tveir á sextugsaldri og tveir undir tvítugu. Þess má geta að við eftirlit lögreglunnar undanfarið hefur verið fylgst sérstaklega með umferð við vínbúðir í umdæminu og svo verður áfram. Lætur nærri að daglega séu ökumenn teknir fyrir ölvunarakstur á þessum stöðum.
Um helgina tók lögreglan tvo ökumenn sem voru undir áhrifum fíkniefna en þeir voru báðir stöðvaðir í Reykjavík. Í öðru tilvikinu var um að ræða hálfþrítuga konu en hún var jafnframt á stolnum bíl. Í hinu tilvikinu átti í hlut karl á fertugsaldri.