5 Desember 2006 12:00
Í desember 2005 var 71 ökumaður tekinn fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík. Karlmenn voru þar í miklum meirihluta eða tæplega 75%. Langflestir þeirra voru á þrítugsaldri en næst á eftir komu þeir sem voru á fertugsaldri en þessir tveir aldurshópar skáru sig algjörlega úr hjá körlunum. Sé litið til kvenna var niðurstaðan sú sama hvað varðaði aldurshópinn sem var oftast tekinn fyrir ölvunarakstur en það voru konur á þrítugsaldri.
Árin á undan var ástandið mun skárra í þessum efnum en ámóta margir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í desember 2004 og 2003, eða 43 og 44. Þeirri óheillaþróun sem varð vart í fyrra þarf því að snúa við en sem fyrr leggur lögreglan í Reykjavík mikla áherslu á að stöðva ölvaða ökumenn. Eins og áður er haldið úti mjög öflugu eftirliti sem m.a. beinist að umferð við verslunarkjarna og veitingahús. Af þeirri ástæðu er viðbúið að margir ökumenn verða stöðvaðir á næstu dögum og vikum. Ökumenn skulu samt hafa hugfast að þetta eftirlit er ekki síst í þeirra þágu en til að forðast vandræði er best að muna að akstur og áfengi fer aldrei saman.