18 Mars 2008 12:00

Ellefu ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um síðustu helgi. Sjö voru stöðvaðir á laugardag og fjórir á sunnudag. Tíu voru teknir í Reykjavík og einn í Hafnarfirði. Þetta voru tíu karlar á aldrinum 19-51 árs og ein kona, 18 ára. Á sama tímabili tók lögreglan fimm ökumenn sem voru undir áhrifum fíkniefna. Fjórir voru stöðvaðir í Reykjavík og einn í Kópavogi. Þetta voru allt karlar á þrítugsaldri. Þá var kona á sjötugsaldri tekin fyrir akstur undir áhrifum lyfja.

Fimmtíu og sex umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en eitt þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Flest óhöppin voru minniháttar en í nokkrum tilvikum þurfti þó að flytja fólk á slysadeild. Í sjö tilfellum var um afstungu að ræða.