15 September 2006 12:00

Fjórir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í Reykjavík í gær og nótt. Þá var einn ökumaður tekinn fyrir að aka undir áhrifum lyfja. Allt voru þetta karlmenn, sá yngsti um tvítugt en sá elsti liðlega fimmtugur. Allmargir voru teknir fyrir hraðakstur en einn þeirra á ökuleyfissviptingu yfir höfði sér. Sá var staðinn að verki í Arnarbakka í Breiðholti en þar hefur borið mikið á hraðakstri. Þá var einn ökumaður tekinn fyrir að aka bæði of hratt og að tala í síma án þess að vera með handfrjálsan búnað.

Töluvert var um umferðaróhöpp í gær en í september má sjá aukningu árekstra frá því í sumar. Á því eru ýmsar skýringar og miklu veldur auðvitað að umferðin er orðin mjög þung. Að undanförnu hafa lögreglunni í Reykjavík borist að jafnaði um 20-30 tilkynningar um árekstra á virkum dögum.