4 Júní 2007 12:00

Fimmtán ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Tveir voru stöðvaðir á föstudag, fimm á laugardag, sex á sunnudag og tveir í nótt. Átta voru teknir í Reykjavík, fjórir í Kópavogi, tveir í Hafnarfirði og einn í Mosfellsbæ.

Þetta voru ellefu karlar og fjórar konur. Karlarnir eru flestir á þrítugs- og fertugsaldri en einn þeirra hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Tvær kvennanna eru á fertugsaldri. Önnur þeirra hefur aldrei öðlast ökuréttindi en hin, sem hafði þegar verið svipt ökuleyfi, var á stolnum bíl og lenti í umferðaróhappi þar sem hún ók á tvo bíla. Þá var rúmlega tvítugur piltur tekinn fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna en sá var stöðvaður í miðborginni aðfaranótt laugardags þar sem hann ók á móti umferð í einstefnugötu.

Um helgina stöðvaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fjóra aðra ökumenn sem allir höfðu sest undir stýri í óleyfi. Þrír þeirra höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi og sá fjórði er 16 ára og hefur því aldrei öðlast ökuréttindi. Sá síðastnefndi var jafnframt með of marga farþega í bílnum sem hann ók.