10 Apríl 2007 12:00

Tuttugu og þrír ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um páskana. Sjö voru stöðvaðir á skírdag, þrír á föstudaginn langa, sex á laugardag, fjórir á páskadag og þrír í gær. Fimmtán voru teknir í Reykjavík, fimm í Hafnarfirði, tveir í Kópavogi og einn í Mosfellsbæ.

Þetta voru tuttugu karlmenn og þrjár konur. Níu karlanna eru á aldrinum 17-19 ára. Sjö eru á þrítugsaldri, þrír á fertugsaldri og einn er sjötugur. Elsta konan í hópnum er á sextugsaldri en hinar eru báðir á þrítugsaldri.

Þá voru tveir teknir fyrir að aka undir áhrifum lyfja. Fyrst 22 ára kona á laugardagskvöld en hún keyrði á ljósastaur á Vesturlandsvegi. Konan slapp lítið meidd en bíll hennar stórskemmdist. Aðfaranótt páskadags stöðvuðu lögreglumenn síðan för 24 ára karlmanns í Kópavogi fyrir sömu sakir.