28 Janúar 2014 12:00

Reglulega berast lögreglu tilkynningar þar sem kvartað er undan hávaða. Oftast koma tilkynningar af þessu tagi á borð lögreglu seint á kvöldin eða á næturna, en stundum um miðjan dag. Sú var raunin í gær, en um kaffileytið var kvartað undan hávaða í íbúð í fjölbýlishúsi í vesturborginni. Tilkynnandi greindi frá því að mikil öskur heyrðust frá ónefndri íbúð og svakalegir dynkir að auki. Þrír lögreglumenn voru sendir á staðinn, tilbúnir að skakka leikinn og koma á friði í íbúðinni. Í henni reyndust vera tveir piltar innandyra og voru þeir steinhissa þegar lögreglan bankaði upp á. Spurðir um hávaðann sögðust strákarnir hafa verið í tölvuleik og kannski lifað sig fullmikið inn í leikinn. Þeim var leyft að halda tölvuleiknum áfram, en þó með því skilyrði að spila leikinn af meiri stillingu og með minni tilþrifum.