7 Ágúst 2019 15:19
Umferðin um verslunarmannahelgina gekk ágætlega fyrir sig eins og fram hefur komið, en þó þurfti Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að hafa afskipti af hátt í eitt hundrað ökumönnum sem voru að ferðast til og frá umdæminu. Flestir voru stöðvaðir á Suðurlandsvegi vegna hraðaksturs, en sá sem hraðast ók mældist á 143. Nokkrir voru líka staðnir að því að tala í síma án handfrjáls búnaðar og þá voru tveir ökumenn teknir fyrir þær sakir að aka um á nagladekkjum. Það sem kom þó einna mest á óvart við eftirlitið var hversu margir voru kærulausir þegar framlengdu hliðarspeglarnir, sem á að nota þegar verið er að draga breiða eftirvagna/ferðavagna, voru annars vegar, en allmargir voru stöðvaðir af þeirri ástæðu og fengu tiltal fyrir. Hinir sömu voru iðulega með þessa nauðsynlegu spegla í bílnum en höfðu ekki hirt um að smella þeim á til að framlengja hliðarspeglana! Vakti þetta nokkra furðu lögreglumanna á vettvangi, en ökumönnunum var gert að bæta úr þessu á staðnum.