23 Apríl 2003 12:00

Laugardaginn 26. apríl verður opið hús á lögreglustöðinni við Hlemm frá kl. 11 til 17. Opið hús er í tilefni af 200 ára afmæli lögreglunnar í Reykjavík en fyrstu lögregluþjónarnir í Reykjavík tóku til starfa 15. apríl 1803.

Starfsemi lögreglunnar í Reykjavík verður kynnt og almenningi gefinn kostur á að skoða búnað og tæki lögreglunnar. Krökkum og fullorðnum verður boðið að setjast á lögguhjól, setjast inn í lögreglubíla, heilsa upp á lögregluhundana og skoða margvísleg tól og tæki lögreglunnar. Íbúum umdæmisins og nærsveitungum gefst gott tækifæri til að kynna sér starfsemi lögreglunnar með því að koma í heimsókn til embættisins. Sjálf lögreglustöðin verður opin en einnig fangageymslurnar og port lögreglustöðvarinnar þar sem ökutæki lögreglunnar og fleira verður til sýnis. Þá mun Lögreglukórinn taka lagið fyrir gesti og gangandi. Í tilefni dagsins verður myndasamkeppni á meðal barna sem kynnt hefur verið í grunnskólum í umdæminu og verður tekið á móti myndum á lögreglustöðinni. Börn eru hvött til að koma með eigin myndir sem sýna lögregluna við störf og samskipti lögreglu og borgarana. Nánari upplýsingar um myndasamkeppnina fást á heimasíðu embættisins www.lr.is

Gestum er bent á stæði bak við lögreglustöðina (ekið inn frá Rauðarástíg) auk nærliggjandi stæða við Skúlagötu, við hliðina á og framanvið lögreglustöðina og við Hlemm en búast má við töluverðum fjölda gesta.

Hverfalögreglustöðvarnar á Seltjarnarnesi, Breiðholti, Grafarvogi og Mosfellsbæ verða einnig opnar almenningi milli kl. 11 og 17 og verður vel tekið á móti gestum. Dagskrá þar verður hins vegar með einfaldara móti