24 Júlí 2007 12:00

Karlmaður um fertugt var handtekinn á veitingahúsi í miðborginni í gærkvöld en þar hafði hann gert vel við sig í mat og drykk. Þegar kom að því að greiða reikninginn gat maðurinn hins vegar ekki borgað fyrir kræsingarnar. Hann er því skiljanlega ekki lengur neinn aufúsugestur á veitingastaðnum en maðurinn er raunar óvelkominn á fleiri stöðum. Undanfarnar þrjár vikur hefur hann neytt matar og drykkjar á sex veitingahúsum í höfuðborginni án þess að vera borgunarmaður fyrir því sem hann fékk sér.

Karlmaður á líkum aldri var handtekinn á öðru veitingahúsi í miðborginni í gær en sá gat ekki heldur borgað fyrir matinn sem hann lét ofan í sig. Sami maður kom líka við sögu hjá lögreglu fyrr í mánuðinum en þá gisti hann á hóteli í nokkra daga en reyndist síðan ekki fær um að borga fyrir þjónustuna. Það var í þriðja sinn á árinu sem maðurinn fékk sér hótelgistingu, svo vitað sé, en í öll skiptin var hann auralaus þegar kom að skuldadögum.