4 Janúar 2012 12:00

Tilkynnt var um dauða kanínu til lögreglunnar í gær. Jafnframt kom fram að kanínan væri brunnin og vöknuðu óhjákvæmilega spurningar um illa meðferð á dýrinu. Fjallað var um málið í Fréttablaðinu í dag og ennfremur um fáleg viðbrögð lögreglu við tilkynningunni. Vegna þessa skal tekið fram að mjög óljósar upplýsingar lágu fyrir um vettvang og voru tilkynnendur, sem voru börn í þessu tilviki, beðnir um frekari upplýsingar að höfðu samráði við foreldra sína.

Eftir að málið hafði tekið á sig skýra mynd hittu lögreglumenn börnin og forráðamann þeirra og var vísað á staðinn þar sem kanínuna var að finna. Á vettvangi var einnig brunninn kofi, sem ætla má að kanínan hafi verið í. Bæði henni og kofanum var fargað. Nokkru síðar hafði maður samband við lögreglu og upplýsti að hann hefði kveikt í kofanum með kanínuna innanborðs. Maðurinn tók hins vegar alveg skýrt fram að hún hefði verið dauð áður en hann bar eld að kofanum og hefði dauða kanínunnar borið að með eðlilegum hætti. Lögreglan telur ekki ástæðu til að rengja frásögn mannsins en hann var mjög miður sín vegna málsins. Maðurinn gat þess ennfremur að hann hefði alltaf ætlað sér að urða bæði kofann og hræið en því verki hefði því miður bara verið rétt ólokið þegar börnin komu að og þótti honum það afar leitt.