25 Ágúst 2006 12:00

Lögreglan í Kópavogi heldur uppi reglulegu eftirliti með umferð við grunnskólana í Kópavogi  allt skólaárið og hefur svo verið í mörg ár.  Á þeim tíma er skólarnir byrja á haustin  hefur lögreglan aukið eftirlitið enn frekar.   Tilgangurinn með eftirliti og nærveru lögreglu er að draga úr hraða bifreiða í kringum skólana og vera leiðbeinandi fyrir nemendur þar sem þörf er á. Á þessum fyrstu skóladögum hefur lögreglan þegar þurft að hafa afskipti af nokkrum ökumönnum þar þeir hafa verið kærðir fyrir of hraðan og/eða ógætilegan akstur við grunnskólana.

Auk þess að auka eftirlit með umferð í skólabyrjun heimsækir lögreglan nemendur sem eru að hefja nám í 1. bekk í grunnskólum Kópavogs.  Lögreglumaður fer í hverja bekkjadeild og ræðir við nemendur.   Þar er lögð áhersla á við nemendur að þau finni öruggustu leiðina í skólann, því ekki fer alltaf saman stysta og öruggasta leiðin.  Foreldrar grunnskólanemenda í 1. bekk fá einnig bréf frá lögreglu þar ítrekað er við þau nauðsyn þess að börnin þeirra læri öruggustu leiðina í skólann.  Er nemendur hefja skólagöngu sína í grunnskóla eru það oft þeirra fyrstu skref þar sem þau eru ein í umferðinni.   Því skiptir miklu að þau fái góða leiðsögn frá foreldrum og venji sig á að hafa öryggi í huga í umferðinni.  Það gera þau best með því að velja göngustíga, ljósastýrð gangbrautarljós eða gangbraut á leiðinni í skólann, ef þess er kostur.   Umferðarstofa gefur út bækling sem heitir “Á leið í skólann”, sem er fræðsluefni ætlað foreldrum barna sem eru að hefja skólagöngu.  Sér lögreglan í Kópavogi um að afhenda nemendum bæklinginn í heimsókninni til þeirra á tímabilinu 5. – 15. september. Foreldrar eru hvattir til að kynna sér efni hans og ræða við börn sín.

Miklu skiptir að ökumenn hafi í huga að draga úr hraðanum í íbúðahverfum þar sem skólabörn eru á  ferðinni.   Hámarkshraði við alla grunnskólana  og í íbúðarhverfum í Kópavogi er 30 km/klst.