18 Júlí 2007 12:00

Á dögunum voru tveir 17 ára piltar handteknir á höfuðborgarsvæðinu en þeir voru með hvítan trékross í eftirdragi sem hafði að geyma nafn látins einstaklings. Aðspurðir sögðust þeir hafa fundið krossinn fyrir tilviljun á víðavangi og ætluðu nú að gera úr honum listaverk. Piltarnir voru margsaga og gátu með engu móti vísað á fundarstaðinn. Þeim var gerð grein fyrir alvarleika málsins og sögðu þá að eigandinn myndi ekki sakna krossins enda væri sá farinn yfir móðuna miklu. Við eftirgrennslan kom í ljós að krossinn var tekinn úr kirkjugarði en málið er nú til frekari rannsóknar. Fleira fannst í fórum piltanna og voru skýringar þeirra á sömu lund og lítt trúverðugar sem fyrr.