6 Október 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík var kölluð til vegna umferðaróhapps í hádeginu í gær. Ekki er það beinlínis í frásögur færandi utan þess að annar ökumaðurinn á vettvangi gaf upp ranga kennitölu. Sá sem reyndi þarna að villa um fyrir lögreglunni er hálffertug kona en kennitöluna sem hún gaf upp, á kynsystir hennar sem er tíu árum yngri. Ekki tókst konunni að leika á lögregluna en hún var handtekin vegna gruns um akstur undir áhrifum lyfja. Við frekari eftirgrennslan kom á daginn að hún var svipt ökuleyfi í sumar og átti eftir að taka út sína refsingu að fullu.

Konunni var síðan sleppt úr haldi en hún virðist ekki hafa látið sér segjast. Hún var komin í eitt nágrannarsveitarfélaganna síðdegis og undir kvöldmat sást til hennar við matvöruverslun. Þaðan var stolið veski og bendir flest til að fyrrnefnd kona hafi verið þar að verki. Umrædd kona hefur oft áður komið við sögu lögreglunnar.