20 Nóvember 2006 12:00
Hann var sérlega ósvífinn þjófurinn sem bankaði upp á hjá fullorðinni konu í Reykjavík í gær. Þjófurinn bað um að fá að hringja og konan varð við því. Hún var líka svo hjálpsöm að ná í símaskrá til að fletta upp nafni þess sem þjófurinn þóttist ætla að hringja í. Og á meðan konan leitaði í símaskránni notaði þjófurinn tækifærið og stal veski hennar sem var í tösku við útidyrnar. Í því voru kort sem konan mátti illa við að missa. Þjófurinn er vægast sagt auðvirðulegur en lögreglan í Reykjavík gerir sér vonir um að til hans náist.
Því miður voru fleiri óprúttnir aðilar á ferðinni í borginni um helgina. Í þeim hópi voru þrír bensínþjófar en einn þeirra náðist þegar hann lenti í umferðaróhappi í öðru byggðarlagi. Þá var fólk á þrítugsaldri, tveir karlmenn og ein kona, handtekin á gististað í borginni en þau framvísuðu stolnu greiðslukorti þegar borga átti fyrir mat og gistingu.