7 Apríl 2008 12:00

Því var nokkuð brugðið fólkinu sem hugðist taka sér far með lyftu á einni af sjúkrastofnunum borgarinnar um miðjan dag á föstudag. Eftir að búið var að gefa til kynna á hvaða hæð skyldi halda, þ.e. ýta á viðeigandi hnapp, og lyftuhurðin hafði lokast bifaðist lyftan samt ekkert. Þess í stað gaus upp reykjarmökkur enda brann lyftumótorinn yfir og rafmagnið sló út. Til allrar hamingju opnaðist lyftuhurðin fljótt og fólkið komst út en nokkurn tíma tók að koma lyftunni í samt lag aftur. Vegna þessa þurfti m.a. að loka nálægri götu í dágóðan tíma enda var slökkviliðið kallað út.

Engum öðrum sögum fer af óhöppum í umræddri lyftu en atvikið á föstudag má rekja til mannlegra mistaka. Burðargeta lyftunnar miðast við sex manns en þegar óhappið varð voru ellefu manns um borð. Því fór sem fór en þess skal getið að engum varð meint af.