18 Október 2006 12:00

Verkefni lögreglunnar í Reykjavík eru af ýmsum toga. Eitt af þeim er að stilla til friðar þegar upp úr sýður hjá fólki. Sjaldnast eiga börn og unglingar þar í hlut en þó kemur það fyrir annað slagið. Tvö slík tilfelli komu á borð lögreglunnar í gær. Í því fyrra þurfti að róa unglingspilt sem tók því mjög illa þegar á hann voru bornar sakir um stríðni. Þetta gerðist á skólatíma en pilturinn skeytti skapi sínu á húsmunum.

Seinna tilvikið var sömuleiðis alvarlegt en þá var beðið um aðstoð lögreglunnar að ónefndu húsi í borginni. Þar ríkti mikið ósætti um afnot af heimilistölvunni. Búið var að setja unglingspilti stólinn fyrir dyrnar hvað varðaði tölvunotkun. Drengurinn vildi fá meiri tíma í tölvunni en honum var úthlutað og lét öllum illum látum þegar ekki var orðið við því.