18 Júlí 2007 12:00
Á ákveðnum stöðum á höfuðborgarsvæðinu hefur leyfður hámarkshraði á vegum verið lækkaður sökum þess að framkvæmdir standa yfir. Það á t.d. við um gatnamót Vesturlandsvegar og Þingvallavegar en í gær var unnið þar við malbikun en síðar í sumar verður hringtorg tekið í notkun á þessum stað.
Á umræddum gatnamótum er nú 30 km hámarkshraði enda er um vinnusvæði að ræða. Engu að síður eiga fjölmargir ökumenn erfitt með taka tillit til aðstæðna en segja má að í gær hafi keyrt um þverbak. Svo fór að óskaði var eftir aðstoð lögreglu við að halda niðri hraðanum enda skapar ógætilegur akstur ávallt hættu fyrir vegfarendur. Í þessu tilfelli átti það ekki síst við um þá starfsmenn sem voru að vinna við malbikun á staðnum en þeim stóð ógn af hraðakstri um gatnamót Vesturlandsvegar og Þingvallavegar.
Skemmst er frá því að segja að ökumenn drógu verulega úr hraðanum við komu lögreglu á staðinn. Framkvæmdir halda áfram á þessum gatnamótum næstu vikur og því biður lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ökumenn að sýna þolinmæði þar sem annars staðar í umferðinni.