7 Mars 2007 12:00

Það hefur oft verið sagt að karlmenn sé lítt gefnir fyrir búðaráp. Sjálfsagt er margt til í því og kannski á ungi drengurinn, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitaði að síðdegis í gær, eftir að verða eins og kynbræður hans hvað það varðar. Drengurinn, sem er á sjötta aldursári, var í för með mömmu sinni sem þurfti að bregða sér í búð til að kaupa í matinn. Á meðan átti sá stutti að bíða í bíl þeirra mæðgina. Eitthvað virðist honum hafa leiðst biðin því drengurinn var horfinn þegar mamman sneri aftur í bílinn. Lögreglan var þá kvödd til og fór hún að svipast um eftir drengnum. Sem fyrr var hann hvergi sjáanlegur og var þá farið að heimili hans en um nokkurn spöl var að fara. Þar fannst svo drengurinn í makindum sínum og urðu það fagnaðarfundir þegar mamman kom heim aftur.