22 Desember 2017 15:07

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur birt skýrslu með niðurstöðum úr árlegri könnun á viðhorfum til lögreglu, ótta við afbrot og reynslu af þeim. Helstu niðurstöður úr skýrslunni eru:

 • Öryggi höfuðborgarbúa í eigin hverfi breyttist lítið á milli ára. Um það bil níu af hverjum tíu segjast öryggir einir á gangi í eigin hverfi eftir myrkur.
 • Að sama skapi breytist mæld öryggiskennd í miðborg Reykjavíkur einnig lítið á milli ára. Um helmingur höfuðborgarbúa segjast öryggir einir á gangi í miðborginni þegar myrkur er skollið á eða eftir miðnætti um helgar.
 • Umtalsverður munur er á öryggi kynjanna í miðborginni. Rétt um ein af hverjum fjórum konum segist örugg í miðborginni eftir myrkur – en um tveir af hverjum þremur körlum.
 • Einnig vekur athygli að öryggi íbúa Miðborgar minnkar nokkuð á milli ára. Fer úr rúmlega 70 prósentum í rúmlega 50 prósent.
 • Rúmlega helmingur höfuðborgarbúa upplifðu aðstæður þannig að þeir töldu líklegt að þeir yrðu fyrir afbroti árið 2016. Hlutfallið er svipað og mældist í könnun árið áður.
 • Hlutfallslega fleiri konur en karlar sögðust hafa upplifað slíkar aðstæður árið 2016, um 50 prósent karla á móti 60 prósentum kvenna.
 • Íbúar í Breiðholti og Kópavogi (löggæslusvæði 3) voru marktækt líklegri til þess að hafa aldrei upplifað ótta við að verða fyrir afbroti árið 2016.
 • Af þeim sem sögðust einhvern tíma hafa óttast að verða fyrir broti óttuðust flestir að verða fyrir innbroti. Marktækur munur var á ótta karla og kvenna. Karlar voru líklegri til þess að óttast það að verða fyrir eignaspjöllum (um 20% karla og 7% kvenna) en konur voru líklegri til þess að óttast það að verða fyrir innbroti (41% á móti 29%) og kynferðisbroti (17% á móti 1%).
 • Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar höfðu tæplega einn af hverjum þremur höfuðborgarbúa orðið fyrir afbroti árið 2016. Er það svipað hlutfall og síðastliðin ár.
 • Flestir greindu frá því að hafa orðið fyrir eignaspjöllum (21%), næst flestir þjófnaði (10%) og þar næst innbrotum (7%).
 • Um það bil þrjú prósent íbúa greindu frá því að hafa orðið fyrir kynferðisbroti árið 2016. Af þeim lýstu flestir atvikinu sem særandi framkomu (51%) og næst flestir sem grófri kynferðislegri áreitni (30%). Um 16 prósent þeirra sem urðu fyrir kynferðisbroti árið 2016 lýstu atvikinu sem nauðgun.
 • Aðeins um einn af hverjum fimm sem urðu fyrir afbroti árið 2016 tilkynntu brotið til lögreglu. Er það aðeins lægra hlutfall en mælst hefur undanfarin ár.

Gagnaöflunin fór fram dagana 11. maí til 21. júní 2017 og var framkvæmd af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir embætti ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Tekið var 2.000 manna tilviljunarúrtak fólks á aldrinum 18 ára og eldra af höfuðborgarsvæðinu úr netpanel Félagsvísindastofnunar. Fjöldi svarenda var 1.271 og svarhlutfallið því 63,5 prósent. Gögnin voru vigtuð fyrir kyni, aldri og menntun svarenda.