21 Apríl 2021 14:11

Skráð voru 718 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í mars og fjölgaði þessum brotum á milli mánaða. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir mars 2021.

Í desember voru skráð 723 umferðarlagabrot (að hraðamyndavélum undanskildum). Það sem af er ári hafa verið skráð um 18 prósent færri umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu en að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár á undan.

Ofbeldisbrotum fjölgaði á milli mánaða og var mesta fjölgunin að sjá í minniháttar líkamsárásum. Álíka margar tilkynningar um heimilisofbeldi bárust lögreglunni í mars og í febrúar en það sem af er ári hafa borist um 28% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi en bárust að meðaltali á sama tímabili sl. þrjú ár á undan.

Skráðum fíkniefnabrotum fjölgaði á milli mánaða og voru fjögur stórfelld fíkniefnabrot skráð á höfuðborgarsvæðinu í mars. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna fjölgaði einnig á milli mánaða líkt og tilkynningar þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur.

Tilkynningum um innbrot fækkaði á milli mánaða en á síðustu 10 árum hafa ekki borist jafn fáar tilkynningar um innbrot og í mars 2021.

Tilkynningum um þjófnaði fjölgaði nokkuð á milli mánaða og var mestu fjölgunina að sjá í reiðhjólaþjófnaði. Lögreglan vill því nota tækifærið og benda fólki á óskilamunasíðu lögreglunnar inná www.logreglan.is en þar setur lögreglan meðal annars inn myndir af reiðhjólum sem hafa komið í leitirnar.