19 Apríl 2022 12:04

Það var í mörg horn að líta hjá lögreglunni um páskahelgina, en þrjátíu ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu. Þá var tilkynnt um tíu líkamsárásir, þar af eina mjög alvarlega í miðborginni á föstudaginn langa. Þar var maður stunginn með hnífi, en árásármaðurinn var handtekinn og síðar úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald. Þrettán sinnum var lögreglan kölluð til vegna heimilisofbeldis og þá eru um tuttugu þjófnaðarmál á borði lögreglu eftir helgina, þar af nokkur innbrot. Ein kannabisræktun var stöðvuð í umdæminu og nokkrir voru handteknir grunaðir um sölu og dreifingu fíkniefna, en lagt var hald á fíkniefni og fjármuni í fórum þeirra.

Um páskana voru fjarlægð skráningarnúmer af um fimmtíu ökutækjum, sem voru ýmist ótryggð eða óskoðuð, og til viðbótar voru höfð afskipti af tæplega fjörutíu bílum sem var lagt ólöglega, en 10000 kr. sekt bíður umráðamanna þeirra. Þrettán tilkynningar bárust um skemmdarverk á höfuðborgarsvæðinu. Loks má nefna að venju samkvæmt barst töluvert af tilkynningum þar sem kvartað var undan hávaða. T.d. út af partístandi og tilheyrandi tónlistarhávaða, en líka út af ýmiskonar framkvæmdum. Þá voru geltandi hundar til ama, en nokkrar kvartanir bárust vegna þeirra og er þá fátt eitt nefnt af því sem var tilkynnt til lögreglu um páskahelgina.