20 Mars 2015 11:16
Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að, eru bannaðar á ákveðnum tíma um bænadaga og páska. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur spil fara fram. Tekið skal fram að listsýningar, tónleikar, leiksýningar og kvikmyndasýningar eru undanþegnar banni um helgidagafrið á föstudaginn langa en slíkir viðburðir mega þó ekki hefjast fyrr en klukkan 15 umræddan dag. Hér að neðan má sjá nánari upplýsingar um opnunartíma um páskana 2015.
Skemmtanir um bænadaga og páska 2015
Miðvikud. 1. apríl Opið til kl. 03:00 eða 4.30 skv. leyfi
Fimmtud. 2. apríl Skírdagur Opið til miðnættis
Föstud. 3. apríl Föstudagurinn langi Lokað en má opna á miðnætti og vera opið til kl. 03:00 eða 4.30 skv. leyfi
Laugard. 4. apríl Opið til kl. 03:00
Sunnud. 5. apríl Páskadagur Lokað en má opna á miðnætti og vera opið til kl. 03:00 eða 4.30 skv. leyfi.
Mánud. 6. apríl Annar í páskum Opið til kl. 01:00
1. Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að eru bannaðar á neðangreindum tíma um bænadaga og páska. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur spil fara fram.
Föstudaginn langa: Frá kl. 24 á skírdag til kl. 24 föstudaginn langa.
Páskadag: Frá kl. 03 til kl. 24.
Í 5. gr. laga nr. 32, 1997 um helgidagafrið er kveðið á um starfsemi sem undanþegin er því banni sem að ofan greinir. Meðal þess sem undanþegið er á föstudaginn langa og páskadag má nefna listsýningar, tónleika, leiksýningar og kvikmyndasýningar eða sams konar sýningar. Þó má starfsemin eigi hefjast fyrr en kl. 15.00.
2. Ofangreinda daga er heimilt að hafa gisti- og veitingastaði opna allan sólarhringinn. Áfengisveitingastaðir eru þó háðir tímamörkum í leyfum borgarstjórnar/bæjarstjórna. Skal stöðunum lokað þegar leyfðum veitingatíma áfengis lýkur og allir gestir farnir innan klukkustundar. Heimilt er að opna staðina að nýju tveimur klukkustundum eftir að áfengisveitingum átti að ljúka. Veitingar áfengis mega samt ekki hefjast aftur fyrr en reglur sveitarstjórna kveða á um.
Lögreglan gerir ekki athugasemdir við lágværa tónlist eða flutning sjónvarpsefnis á veitingastöðum þessa daga enda sé guðsþjónusta, kirkjuathöfn eða annað helgihald ekki truflað.