21 Febrúar 2012 12:00

Þrír karlar á þrítugsaldri hafa játað að hafa brotist inn á tveimur stöðum í austurborginni í fyrrinótt og stolið peningaskápum. Reyndar fóru þjófarnir tómhentir frá fyrri staðnum því ekki tókst þeim að opna peningaskápinn sem þar var að finna og eins reyndist hann vera of stór og þungur til að flytja á annan stað þar sem halda mætti verkinu áfram. Þrátt fyrir þetta neituðu mennirnir að gefast upp enda brotavilji þeirra mjög einbeittur. Þeir fóru því í beinu framhaldi og brutust inn hjá öðru fyrirtæki á svipuðum slóðum en þar var að finna tvo peningaskápa, öllu minni, sem mennirnir tóku með sér af vettvangi. Þessu næst var ekið á afvikinn stað og þar voru skáparnir brotnir upp en í þeim báðum var að finna reiðufé. Því var skipt bróðurlega á milli mannanna sem síðan héldu til síns heima.

Eftir að lögreglu barst tilkynning um innbrotin þennan sama morgun var á litlu að byggja við rannsókn málsins utan þess að skófar fannst á vettvangi. Það og brjóstvit lögreglumanna leiddi þó til þess að skömmu síðar var bankað upp á hjá manni sem hefur áður komist í kast við lögin. Sá kom svefndrukkinn til dyra og var lítt um þessa heimsókn gefið. Í forstofu hans var hinsvegar að finna skó sem ástæða þótti til að skoða nánar og þá tók hringinn að þrengja en húsráðandi var handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Annar maður var svo vakinn upp af værum blundi skömmu seinna í öðru húsi á höfuðborgarsvæðinu en hann var sömuleiðis viðriðinn málið og því færður til yfirheyrslu. Hjá þeim báðum fundust peningar sem mennirnir höfðu stolið úr peningaskápunum. Þriðji maðurinn var svo handtekinn um hádegisbil en sá var á fótum þegar lögreglan birtist heima hjá honum. Viðkomandi hafði þegar eytt sínum hluta af ránsfengnum en peningana notaði hann m.a. til að kaupa sér áfengi.

Bæði innbrotin teljast upplýst og liggur játning mannanna fyrir eins og áður segir. Tekist hefur að endurheimta meirihlutann af ránsfengnum en það verður að segjast að tímakaup þremenninganna við þessa vafasömu iðju var frekar lélegt enda voru ekki miklir fjármunir í peningaskápunum. Þess má geta að mennirnir hafa allir áður komið við sögu hjá lögreglu.