12 Ágúst 2010 12:00

Kærð hafa verið til lögreglu ætluð auðgunarbrot þar sem afrit segulranda debetkorta og upplýsingum um PIN númer þeirra hefur verið náð af viðskiptavinum hraðbanka hér á landi.  Ætluð brot uppgötvuðust þegar tekið var út án heimildar af debetreikningum 6  íslenskra aðila í hraðbönkum í Frakklandi í byrjun ágúst.  Áttu þessir aðilar sameiginlegt að hafa farið í hraðbanka í Reykjavík og lent í vandræðum með að greiðslukortið festist í kortaraufinni.  Hafi í þessum tilfellum erlendur karlmaður komið og „aðstoðað“ við að leysa úr vandamálinu með því að fá viðkomandi til að slá inn PIN númer.  Þegar ekkert hafi  gerst hafi viðskiptavinurinn snúið frá en hinn hjálpsami útlendingur hafi komið skömmu síðar hlaupandi með greiðslukortið. 

Um er að ræða þekkta aðferð  til að komast yfir greiðslukort og PIN númer og kallast hún „Lebanese loop“ .  Gerist hún með þeim hætti að málm- eða plastfjöður er komið fyrir í kortarauf hraðbankans sem grípur kortið þannig að það festist.  Þegar viðskiptavinurinn er farinn að vandræðast með að hraðbankinn virkar ekki og skilar ekki kortinu þá birtist hjálpsamur borgari og stingur upp á því þjóðráði að slá inn PIN númerið til að losa kortið.  Eðlilega gerist ekkert við það en viðskiptavinurinn er þá búinn að opinbera PIN númerið.  Þegar korthafinn gefst upp á að fá kortið til baka og hverfur frá þá tekur „hjálpsami borgarinn“ fjöðrina ásamt kortinu úr kortarauf hraðbankans.  Yfirleitt hafa þessi kort síðan verið notuð strax í framhaldi en í þessum tilvikum sem hér hafa gerst þá virðist segulrönd kortsins hafa verið afrituð en það er einföld aðgerð og krefst ekki mikils tæknibúnaðar né þekkingar. 

Lögreglan hvetur notendur hraðbanka til að passa upp á að gefa ekki upp öryggisnúmer (PIN) til óviðkomandi með því að slá þau inn að öðrum ásjáandi.