15 September 2006 12:00
Hverfislögreglumenn gegna mikilvægu hlutverki við löggæslu í Reykjavík. Störf þeirra eru sjaldnast í kastljósi fjölmiðla enda sinna þeir verkum sínum oft í kyrrþey. Þeir þekkja mjög vel til aðstæðna í sínum hverfum og það er einmitt lykillatriði til að hægt sé að upplýsa tiltekin mál.
Það á ekki síst við um skemmdarverk en hverfislögreglumenn upplýstu tvö slík mál í vikunni. Í því fyrra komu við sögu nokkrir strákar á framhaldsskólaaldri. Þeir höfðu kveikt í grindverki en könnuðust ekki við neitt þegar á þá var gengið. Hverfislögreglumenn sáu hins vegar við þeim og þegar yfir lauk höfðu strákarnir viðurkennt verknaðinn og héldu síðan mjög skömmustulegir heim á leið.
Í seinna málinu komu við sögu piltar, örlítið yngri, sem hentu grjóthnullungum í grunnskóla. Einn steinninn braut rúðu og hafnaði inni í skólastofu. Myndir náðust af athæfinu en erfitt var að þekkja piltana af upptökunni. Hverfislögreglumaður taldi að hægt væri að þekkja þá á klæðnaðinum og spurðist því fyrir. Svo fór að hann fann piltana en þeir játuðu á sig sök. Fastlega er búist við að þeim verði gert að bæta tjónið og er vonandi að þeir læri sína lexíu.