7 Júní 2003 12:00
Fréttatilkynning.
Reykjavík 7 júni 2003.
Á síðustu sólarhringum hefur lögreglan í Reykjavík haft til meðhöndlunar 17 mál sem tengjast ávana- og fíkniefnum. Flest þeirra (9) eru vegna neyslu slíkra efna og hefur þá neyslumagn ætlaðra fíkniefna fundist við rannsóknina. Fyrstu fimm mánuði ársins hafa komið til meðferðar hjá lögreglu 236 mál sem talin eru tengjast þessum málaflokki á móti 96 á sama tíma árið 2002. Lögreglan í Reykjavík hefur sérstaklega sett sér þau markmið í ár að sinna eftirliti með neyslu og sölu þessara ólöglegu efna.
Lögreglan í Reykjavík lagði hald á umtalsvert magn af kannabisplöntum við húsleit í austurborginni skömmu eftir miðnætti sl. nótt. Lögreglan fór á staðinn vegna gruns um neyslu fíkniefna í húsnæðinu. Á staðnum kom í ljós nokkuð af ætluðum fíkniefnum, en þar stóð þá yfir gleðskapur. Við frekari leit lögreglu fannst herbergi sem falið hafði verið innaf fataskáp. Í því herbergi stóð yfir ræktun á 78 ætluðum kannabisplöntum auk þess sem frekari ræktun var á byrjunarstigi. Ræktuninni hafði verið haganlega fyrirkomið í fjórum hólfum og á tveimur hæðum í herberginu. Á staðnum var einnig lagt hald á lampa og áhöld til ræktunar, auk áhalda til neyslu slíkra efna. Þrír menn voru handteknir vegna málsins og vistaðir í fangageymslu lögreglu og er rannsókn að mestu lokið.
Fhl.
Karl Steinar Valsson
aðstoðaryfirlögregluþjónn