19 Janúar 2023 11:49
Síðastliðið haust hleypti Ríkislögreglustjóri af stokkunum nýju, rafrænu skotvopnakerfi. Undanfarnir mánuðir hafa farið í að slípa kerfið til, en meðal helstu nýjunga þess er að skotvopnaleyfi eru nú gefin út rafrænt með tilstilli Ísland.is. Þar sem kerfið er rafrænt þarf ekki lengur að hlaupa með blöð til undirritunar út um allan bæ, hvort heldur verið er að endurnýja réttindi, eða kaupa og selja skotvopn. Þá gefur kerfið notendum betri möguleika á að fylgjast með eignastöðu sinni í rauntíma, en sjá má eigin skotvopnaeign inni á „Mínar síður – Skírteini“ á island.is. Með því að hlaða niður samnefndu appi fæst skotvopnaleyfið sömuleiðis í snjallsíma, ásamt skotvopnaeign. Hægt er að nálgast allar rafrænar umsóknir á island.is – Skotvopnaleyfi.
Við hvetjum alla sem ekki hafa skoðað þetta að skrá sig inn á Mínar síður á island.is og skoða réttindi sín og eignastöðu. Það hefur nefnilega sýnt sig í sumum tilfellum þegar eignarstaðan er skoðuð, að eitt og annað hefur misfarist í gegnum tíðina við eigendaskráningu skotvopna. Er þá iðulega um það að ræða að skráningarblöð sem notuð voru við slík viðskipti hafa ekki borist lögreglu og fyrir vikið hafa eigendaskipti ekki átt sér stað í skotvopnakerfinu, þó vopn hafi skipt um hendur í raunheimum. Mjög mikilvægt er að hafa þessa hluti í lagi, enda bera leyfishafar sjálfir ábyrgð á því að skotvopn þeirra séu rétt skráð. Leyfishafar sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu og vilja gera athugasemdir varðandi sín mál mega vinsamlegast senda póst á leyfadeild, leyfi@lrh.is. Þeir sem eru með lögheimili utan höfuðborgarinnar senda slík erindi á viðkomandi embætti, en í samræmi við ákvæði vopnalaga eru það lögreglustjórar í því umdæmi þar sem viðkomandi er með lögheimili sem afgreiða þeirra mál.