1 Febrúar 2012 12:00

Lögreglan hefur upplýst rán sem var framið í Árbæ á sunnudagskvöld og hafa tvö ungmenni, 18 ára piltur og 16 ára stúlka, játað sök í málinu. Fórnarlambið er karl á sextugsaldri en af honum var stolið peningum, sjónvarpi og síma. Málsatvik voru á þá leið að maðurinn kynntist stúlkunni á stefnumótalínu en síðan voru frekari samskipti á milli þeirra á spjallrás áður en þau hittust á heimili mannsins. Þar birtist einnig pilturinn en hann og stúlkan ógnuðu manninum með hnífi og blóðugri sprautunál áður en þau fóru á brott með fyrrnefnda muni. Sjónvarpið er komið í leitirnar en símanum munu ungmennin hafa hent. Þótt ránið sé upplýst á lögreglan enn eftir að rannsaka samskipti mannsins og stúlkunnar í aðdraganda þess en í því skyni var lagt hald á tölvur þeirra beggja.