5 Febrúar 2011 12:00

Þrír piltar á aldrinum 18-19 ára hafa játað aðild sína að ráni í söluturni í Breiðholti á þriðjudagskvöld. Tveir piltanna fóru inn í fyrrnefndan söluturn vopnaðir sveðju og kúbeini og ógnuðu bæði starfsfólki og viðskiptavinum. Þeir höfðu á brott með sér lítilræði af fjármunum en þriðji pilturinn var við bíl skammt frá vettvangi og hjálpaði þeim að komast undan. Þremenninganna var leitað síðustu daga og það bar árangur í gær þegar þeir voru handteknir á Akureyri. Piltarnir játuðu síðan aðild sína að málinu við yfirheyrslur í dag. Um leið og málið telst upplýst vill lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þakka starfsbræðrum á Akureyri fyrir veitta aðstoð.