7 Maí 2008 12:00

Rán var framið í útibúi Landsbankans á Bæjarhrauni í Hafnarfirði á tíunda tímanum í morgun. Karlmaður, vopnaður hnífi, ógnaði starfsfólki og hafði síðan eitthvað af fjármunum á brott með sér. Ræninginn, sem var klæddur í hettupeysu og huldi andlit sitt með klúti, komst undan á hlaupum og er ófundinn. Talið er að hann sé á aldrinum 20-30 ára. Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.