10 Júní 2013 12:00

Tveir karlar, 19 og 20 ára, voru í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 8. júlí að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en það var gert á grundvelli almannahagsmuna. Mennirnir, sem hafa báðir kært úrskurðinn til Hæstaréttar, voru handteknir í síðustu viku í tengslum við rán og frelsissviptingu í Grafarvogi í byrjun mánaðarins. Tveir aðrir karlar, 18  og 23 ára, sátu um tíma einnig  í gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarinnar, en þeim var sleppt úr haldi lögreglu í síðustu viku. Allnokkrir til viðbótar hafa verið kallaðir í skýrslutöku hjá lögreglunni í þágu rannsóknarinnar, sem miðar vel.

Eins og fram hefur komið ruddust árásarmenn inn í íbúð karls á sjötugsaldri í Grafarvogi, bundu hann á höndum og fótum og stálu frá honum átta skotvopnum úr vopnaskáp, auk skotfæra. Brotaþoli og árásaraðilar þekkjast ekki, en varsla skotvopnanna á heimili mannsins var í fullu samræmi við það sem reglur kveða á um. Skotvopnin voru endurheimt samdægurs, en þau fundust við húsleit í Hafnarfirði. Tvær aðrar húsleitir voru framkvæmdar í sama bæjarfélagi og fundust þá nokkur vopn til viðbótar, en í báðum tilvikum var um að ræða húsnæði sem tengist Outlaws.