3 Júní 2013 12:00

Fjórir karlar á aldrinum 18-23 ára hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 10. júní að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á ráni og frelsissviptingu í Grafarvogi sl. laugardagsmorgun. Árásarmenn ruddust þá inn í íbúð karls á sjötugsaldri, bundu hann á höndum og fótum og stálu frá honum átta skotvopnum úr vopnaskáp, auk skotfæra. Fjórmenningarnir hafa áður komið við sögu hjá lögreglu, mismikið þó. Árásarþola sakaði ekki, en honum var mjög brugðið.

Lögreglan hefur framkvæmt húsleit á þremur stöðum í Hafnarfirði í tengslum við málið. Skotvopnin fundust á einum þeirra, en þau voru vandlega falin. Hnúajárn, sveðja og ætluð fíkniefni fundust á hinum stöðum. Annar þeirra tilheyrir Outlaws, en hinn meðlimi í þeim sama félagsskap. Við aðgerðirnar hefur lögreglan notið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.