27 Apríl 2009 12:00

Tveir karlar hafa játað að hafa framið rán og húsbrot í Garðabæ um helgina en mennirnir hafa áður komið við sögu hjá lögreglu í ofbeldis- og fíkniefnamálum. Tvær konur eru einnig í haldi lögreglu í þágu rannsóknarinnar en önnur þeirra hefur játað aðild að málinu. Fólkið var handtekið fyrr í dag en krafa um gæsluvarðhald verður lögð fram á morgun. Frá þessu var greint á blaðamannafundi sem haldinn var á lögreglustöðinni nú síðdegis en það voru þeir Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn sem skýrðu frá gangi mála en lögreglan lagði mikla áherslu á að upplýsa málið. Þess má geta að það voru ábendingar frá almenningi sem komu lögreglu á sporið.

Forsaga málsins er sú að lögreglan var kölluð að húsi á Arnarnesi á tólfta tímanum á laugardagskvöld. Þar höfðu tveir menn ruðst inn og farið ránshendi um húsið. Á meðan var heimilisfólkinu, fullorðnum hjónum, haldið í gíslingu og hótað öllu illu en ræningjarnir höfðu eitthvað af verðmætum á brott með sér. Hjónunum var að vonum mjög brugðið en eiginkonan var með áverka eftir þessa miður skemmtilegu heimsókn. Hluti af þýfinu hefur verið endurheimtur.

Friðrik Smári Björgvinsson og Stefán Eiríksson skýrðu frá málinu á blaðamannafundinum í dag.