31 Mars 2018 16:06

Sérfræðingar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru nú að ljúka störfum á vettvangi á sveitabæ í uppsveitum Árnessýslu en þar fannst maður á sjötugsaldri látinn í íbúðarhúsi. Tilkynnandinn, sem jafnframt er ábúandi á bænum, ásamt öðrum manni sem einnig var staddur á vettvangi, eru í haldi og bíða skýrslutöku hjá lögreglu. Mennirnir þrír eru bræður og voru tveir þeirra gestkomandi hjá þeim þriðja.
Ummerki eru um að átök hafi átt sér stað á vettvangi. Dánarorsök mannsins liggur ekki fyrir en réttarkrufning verður framkvæmd strax eftir helgi til að leiða hana í ljós.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verið fram á gæsluvarðhald í málinu.