29 Júní 2023 16:45

Rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á andláti karlmanns á þrítugsaldri um síðustu helgi miðar vel, en m.a. hefur verið rætt við vitni og farið yfir myndefni úr eftirlitsmyndavélum. Lögreglan telur sig hafa skýra mynd af þeirri atburðarás sem leiddi til dauða mannsins.

Karlmaður á svipuðum aldri var handtekinn í tengslum við málið, líkt og áður hefur komið fram, en gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum rann út í dag. Ljóst þykir að aðkoma þess sem setið hefur í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar er með þeim hætti að skilyrði laga um meðferð sakamála, er lúta að gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna, eru ekki til staðar. Því var ekki gerð krafa fyrir héraðsdómi um áframhaldandi gæsluvarðhald og er maðurinn laus úr haldi.  Hann hefur áfram réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins.