20 Febrúar 2008 12:00

Eins og kunnugt er slapp fangi í gæsluvarðhaldi úr haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu föstudaginn 15. febrúar sl. Samhliða leit að umræddum einstaklingi, sem bar árangur síðar sama dag, fór í gang ítarleg innanhússrannsókn á þeim atriðum sem úrskeiðis fóru og leiddu til stroks fangans. Sú rannsókn stendur enn yfir, en að kröfu lögreglustjóra er verið að afla frekari gagna auk þess sem nánar er verið að fara yfir alla þætti málsins, frá móttöku fangans deginum áður, til framkvæmdar vistunar, eftirlits, skráningar o.fl.

Þegar liggur fyrir að móttaka og vistun fangans sem og eftirlit með honum var ekki í samræmi við gildandi verklagsreglur. Einnig liggur fyrir að fanganum fylgdu ekki nauðsynlegar upplýsingar um tilhögun og framkvæmd vistunar. Hins vegar eru ekki uppi grunsemdir um að starfsmenn embættisins hafi komið að málinu með refsiverðum hætti.

Þegar niðurstöður rannsóknar embættisins á því hvað úrskeiðis fór liggja fyrir verður metið hvernig unnt sé að koma í veg fyrir að slíkt gerist á ný og viðeigandi úrbætur gerðar á framkvæmd og skipulagi þessara mála hjá embættinu. Jafnframt mun lögreglustjóri upplýsa dóms- og kirkjumálaráðuneytið um niðurstöður athugunar embættisins og hvernig brugðist verði við þeim atriðum sem aflaga fóru í meðferð embættisins á gæsluvarðhaldsfanganum.

Af þessu tilefni hefur lögreglustjóri einnig ákveðið að flýta fyrirhugaðri úttekt innri endurskoðunar embættisins á starfsemi fangamóttöku LRH, en hún var samkvæmt fyrirliggjandi áætlun innri endurskoðunar á dagskrá síðar á þessu ári. Í þeirri athugun, sem þegar er hafin, verður farið heildstætt yfir móttöku fanga hjá embættinu og gengið úr skugga um að sú móttaka sé eins og reglur kveða á um. Úttekt innri endurskoðunar LRH mun ná til allra þátta sem snerta móttöku, vistun og meðferð fanga hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.