20 Desember 2006 12:00

Rannsókn umferðarslyss á Reykjanesbraut í Molduhrauni, Garðabæ, að kvöldi þess 11. nóvember síðastliðins þar sem einn maður lést, er langt komin. Yfirheyrslur yfir tveimur öðrum mönnum sem í bifreiðinni voru, en báðir sluppu með minniháttar meiðsl, hafa farið fram. 

Við skýrslutöku í dag viðurkenndi annar mannanna að hafa ekið bifreiðinni þegar óhappið varð, en hann hafði áður neitað akstri. Þá kannaðist hann og við að hafa ekið á mikilli ferð skömmu fyrir óhappið.

Niðurstöður úr alkóhólrannsókn á blóði þremenninganna liggja fyrir. Þeir voru allir undir áhrifum áfengis þegar óhappið varð. 

Gert er ráð fyrir að rannsókn málsins ljúki um eða eftir áramót.