15 Mars 2007 12:00

Frá því í október 2006 hefur ávana-og fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu unnið að rannsókn á máli er varðar tilraun til innflutnings á um 14 kg af hassi og 200 grömmum af kókaíni. Rannsóknin hefur verið í samvinnu við dönsk og þýsk yfirvöld. Fjórir aðilar sættu gæsluvarðhaldi vegna málsins hér á landi en þeim hefur verið sleppt. 

Einn íslenskur karlmaður á þrítugsaldri var eftirlýstur erlendis vegna gruns um aðild að málinu og var hann handtekinn af þýskum yfirvöldum þann 21. janúar sl. í Bremen. Hann situr nú í haldi þar vegna rannsóknar á öðru fíkniefnamáli. Lögreglumenn frá Íslandi luku yfirheyrslum yfir honum í Þýskalandi í síðustu viku.  Yfirheyrslur í málinu hafa einnig staðið yfir hér á landi á undanförnum dögum. Málið er nú á lokastigi og verður sent ríkissaksóknara til ákærumeðferðar á næstunni.