24 Apríl 2023 17:03

Rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á andláti karlmanns á þrítugsaldri í Hafnarfirði í síðustu viku miðar vel. Fjórir voru handteknir vegna málsins og úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 27. apríl, líkt og fram hefur komið, en hinum sömu var enn fremur gert að sæta einangrun á meðan á því stendur. Yfirheyrslur hafa staðið yfir undanfarna daga, en að þeim loknum í gærkvöld var einangrun fjórmenninganna aflétt. Lögreglan telur sig í meginatriðum hafa nokkuð skýra mynd af atburðarásinni sem leiddi til dauða mannsins.

Vegna umfjöllunar og umræðu um andlátið vill lögreglan taka fram að hingað til hefur ekkert komið fram við rannsókn hennar sem bendir til þess að þjóðerni hins látna hafi haft með málið að gera.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.